Í nóvember síðastliðnum féll enn eitt metið á höfuðborgarsvæðinu þegar 43,6% allra seldra íbúða seldust yfir ásettu verði en til samanburðar var hlutfallið á bilinu 7-15% á árunum 2018 og 2019. Minni íbúðir með 0-2 herbergjum seldust í 49% tilfella yfir ásettu verði í nóvember en í október var hlutfallið 42%. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

Þá er sölutími íbúða enn mjög stuttur en meðalsölutími í nóvember var 39,2 dagar sem er lítillega meira en í metmánuðinum á undan þegar meðalsölutími mældist 36,8 dagar. Á landsbyggðinni var hins vegar slegið nýtt met þar sem meðalsölutíminn mældist 56,4 dagar en hafði verið 61,4 dagar í október.

Meðalkaupverð íbúða á landinu var 58,5 milljónir í nóvember síðastliðnum samanborið við 50,8 milljónir króna í nóvember árið áður. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalkaupverð 67,6 milljónir en þar af var það 58 milljónir fyrir íbúðir í fjölbýli og 98 milljónir fyrir sérbýli.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Minni íbúðir til sölu fækkar

Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á landinu öllu í nóvember fækkaði um 17% á milli ára en alls voru gefnir út 1.024 kaupsamningar. Yfir sama tímabil hefur velta á íbúðamarkaði hins vegar aðeins dregist saman um 5,2% enda hefur meðalkaupverð hækkað um 15,1%.

Þá kemur fram að í fyrstu vikunni í janúar voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er 20,2% minna en í byrjun desember en bæði fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli eru í sögulegu lágmarki. Fyrir tæpum tveimur árum, nánar til tekið í maí 2020, var fjöldi þeirra um 2.200. Meira en helmingur af íbúðum til sölu eru með fjögur herbergi eða fleiri og því hefur dregið enn meira úr minni íbúðum til sölu.

Bankarnir ekki lengur með lægstu óverðtryggðu vextina

HMS bendir á að bankarnir bjóða ekki lengur upp á lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum. Gildi og Lífeyrissjóður Verslunarmanna eru í dag með lægstu óverðtryggðu breytilegu vextina á íbúðalánum í dag. Óverðtryggð sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna voru hærri en uppgreiðslur en þetta er í fyrsta skipti í 18 mánuði sem það gerist.

Bankarnir hafa undanfarið boðið upp á lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum en það hófst mikil sókn í óverðtryggð lán hjá þeim þegar stýrivextir lækkuðu umtalsvert árið 2020. Þá hélt hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána af heildaríbúðalánum áfram að aukast í nóvember.