Tæplega 53% Íslendinga myndi kjósa Hillary Clinton til embættis forseta Bandaríkjanna ef þeir væri á kjörskrá þar í landi og kosið væri í dag. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnum Maskínu, en niðurstöður hennar birtust í dag.

Rúmlega 38% Íslendinga myndu kjósa Bernie Sanders. Bæði Sanders og Clinton keppast um að hljóta útnefningu Demókrataflokksins, en það þýðir að 91% Íslendinga myndu helst vilja sjá annað hvort þeirra í embætti forseta Bandaríkjanna.

Alls sögðu 4,4,% aðspurðra að þeir myndu kjósa Donald Trump, 1,5% sögðu Ted Cruz og 1,2% sögðu Marco Rubio. Aðrir frambjóðendur mældust undir 1%.

Alls nefndu 81,1% einhvern frambjóðenda auk þess sem 7,6% sögðust myndu skila auðu.

Nokkur munur er á stuðningi kynjanna við frambjóðendur, en þannig styðja rúmlega 67% kvenna Hillary Clinton en tæplega 40% karla. Stuðningur við Bernie Sanders er hinsvegar meiri á meðal karla en kvenna, þar sem um 46% karla segjast myndu kjósa Bernie Sanders en tæplega 30% kvenna.