Tekjur Jarðborana drógust verulega saman á síðasta rekstrarári, námu tæpum 2,8 milljörðum króna og voru aðeins um 40% frá því sem þær voru árið 2019. EBITDA félagsins var neikvæð um 609 milljónir en hafði verið jákvæð um 986 milljónir árið á undan. Meðalfjöldi starfsmanna nærri helmingaðist, var 67 í stað 120.

Í skýrslu stjórnar segir að samdrátt tekna megi rekja til færri verkefna. Líkt og áður sé erfitt að gera langtímaáætlanir þar sem reksturinn sé sveiflukenndur. Rekstrarhorfur þetta árið séu svipaðar, reksturinn verði í járnum en lausafjárstaða og eigið fé haldist sterkt.

Eignir félagsins eru metnar á 5,9 milljarða, eigið fé er 3,7 milljarðar og skuldir alls 2,2 milljarðar.

Félagið var í fyrra með starfsemi á Íslandi, Azor-eyjum, Djíbúti, Hollandi og Karíbahafinu. Stærsti hluthafinn er framtakssjóðurinn SF III slhf. með 81,8% hlut en næstur er Baldvin Þorsteinsson með 7,8%.