Tekist er á um húsnæðismálin á Alþingi. Fjögur frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafa verið afgreitt úr ríkisstjórn og eru þau nú til umræðu í velferðarnefnd. Húsnæðismálin hafa um langt skeið verið í endurskoðun hjá stjórnvöldum og sem dæmi hafa, frá árinu 1999, verið skipaðar um 40 nefndir eða hópar til að fara yfir stöðuna á húsnæðismarkaði.

Rekja má upphafið að fyrirhuguðum breytingum núverandi ríkisstjórnar á húsnæðismarkaði aftur til ársins 2013. Skömmu eftir að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tóku við stjórnartaumunum í maí var samþykkt þingsályktunartillaga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um skuldavanda heimila á Íslandi. Þetta var í lok júní 2013. Á grunni þessarar tillögu skipaði Eygló verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í september sama ár. Í maí 2014 skilaði verkefnisstjórnin ríflega 60 blaðsíðna skýrslu og á grundvelli hennar hófst vinna við frumvörp í húsnæðismálum í ráðuneyti Eygló- ar. Upphaflega hugðist Eygló leggja fjögur frumvörp fram á síðasta þingi en það tókst ekki, meðal annars vegna þess að kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins tók lengri tíma en áætlað var.

Í dag er staðan sú að fjögur frumvörp hafa verið afgreidd úr ríkisstjórn og eru þau nú öll til umfjöllunar í velferðarnefnd. Í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí á síð- asta ári gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um ýmsar aðgerðir til að liðka fyrir samningunum. Húsnæðisfrumvörpin eiga það sameiginlegt að vera hluti af þessum aðgerðum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa verið töluverð átök innan stjórnarflokkanna um þessi frumvörp og þá helst frumvarpið um húsnæðisbætur.

11,4 milljarðar á ári

Frá og með árinu 2017 verða árleg útgjöld hins opinbera vegna nýs húsnæðisbótakerfis, stofnframlaga og skattabreytinga um 11,4 milljarðar króna.

Ef allar þessar breytingar ná fram að ganga mun hið opinbera verja 43,6 milljörðum króna í húsnæðismál á árunum 2016 til 2019. Inni í þeirri tölu eru 6 milljarðar vegna almennra og sérstakra húsaleigubóta árið 2016 (þetta er núverandi bótakerfi), 24 milljarðar vegna nýs húsnæðisbótakerfis á árunum 2017 til 2019 (8 milljarðar ári), 12 milljarðar vegna stofnframlaga til byggingar almennra íbúða (3 milljarðar á ári) og 1,6 milljarðar vegna skattabreytinga (400 milljónir á ári).

Nettó útgjaldaaukning hins opinbera vegna fyrirhugaðra breytinga í húsnæðismálum og skattabreytinga er 19,6 milljarðar króna. Ríki og sveitarfélög geta farið fram á endurgreiðslu stofnframlaga en samkvæmt útreikningum Analytica munu slíkar endurgreiðslur ekki hefjast fyrr en árið 2046. Í þessari umfjöllun hefur fyrst og fremst verið fjallað um breytingar á húsnæðismálum og þess vegna var ekki tekinn með kostnaður ríkisins vegna vaxtabóta. Sjálfsagt er að geta þess að á þessu ári er gert ráð fyrir að ríkið greiði 6,2 milljarða króna í vaxtabætur.

© vb.is (vb.is)

Ítarlegar er fjallað um breytingar á húsnæðismálum í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .