Heildarvelta Denim ehf, félags utan um fataverslanir Levi‘s á Íslandi, nam 434 milljónum króna á síðasta ári. Veltan jókst þar með um 35% frá árinu áður þegar hún var 320 milljónir, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.

Rekstrargjöld félagsins jukust einnig á milli ára, fóru úr 297 milljónum upp í 377 milljónir. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um tæpar 35 milljónir.

Félagið hagnaðist ágætlega á árinu, eða um 44 milljónir króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 3 milljónir árið 2020.

Eignir félagsins eru metnar á tæpar 140 milljónir króna árið 2021, og jukust þær um 66% á milli ára. Eigið fé tvöfaldaðist á milli ára og var 66 milljónir, en eiginfjárhlutfallið var 47%.

Fasteignir félagsins eru metnar á rúmar 34 milljónir króna, en Denim rekur þrjár Levi‘s verslanir á Íslandi, í Kringlunni, Smáralind og á Hafnartorgi.