*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 27. nóvember 2021 11:38

44% tekjusamdráttur Bílaleigu Flugleiða

Covid-19 helst orsök neikvæðs viðsnúngis Bílaleigu Flugleiða á síðasta ári.

Ritstjórn
Bílaleiga Flugleiða rekur Hertz á Íslandi.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Tap Bílaleigu Flugleiða ehf., sem rekur Hertz á Íslandi, nam 314 milljónum króna á síðasta ári en árið áður hagnaðist bílaleigan um 70 milljónir króna. Tekjur félagsins drógust verulega saman milli ára, eða úr 3,7 milljörðum króna árið 2019 í tæplega 2,1 milljarð árið 2020. Ætla má að Covid-19 heimsfaraldurinn sé helsta orsök þessa neikvæða viðsnúnings en faraldurinn hefur leikið ferðaþjónustuna og tengdar greinar grátt. Rekstrargjöld námu 2,3 milljörðum króna í fyrra, en árið áður námu þau 3,4 milljörðum króna. Eignir bílaleigunnar námu 4,7 milljörðum króna í lok árs 2020 og eins og gefur að skilja er bílaflotinn, sem metinn er á 3,3 milljarða króna í bókum félagsins, langstærsta eign bílaleigunnar. Eigið fé nam 803 milljónum króna í árslok 2020 en í lok árs árið áður nam eigið fé bílaleigunnar 1,1 milljarði króna.