Vísitala neysluverðs, miðað við verðlag í maí, hækkaði um 0,42% frá því í apríl og undanfarna tólf mánuði hefur verðbólga aukist um 4,4%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni .

Verðbólga hjaðnar um 0,2% frá því í apríl, en hún var 4,6% í mánuðinum og hafði þá ekki verið hærri í átta ár . Í miðjum mánuði spáði Íslandsbanki því að verðbólga hefði náð hátindi sínum í apríl síðastliðnum og spáðu að hún yrði 4,4% í mánuðinum.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,23% frá apríl. Undanfarna mánuði hafa hækkanir á húsnæðisverði vegið þyngst til hækkana á vísitölu neysluverðs.

Spáð hefur verið að verðbólgu taki að hjaðna þegar að líður á árið og hefur Seðlabankinn spáð því að verðbólga verði kominn niður í 2,5% markmið bankans fyrir lok árs. Verðbólga mældist 3,6% í desember á síðasta ári en hefur ekki farið undir 4,1% á þessu ári.