4.400 manns hafa misst  vinnuna á árinu í hópuppsögnum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Langstærstur hluti hópuppsagnanna bárust í október eða 67%.

Alls sögðu 64 fyrirtæki upp 2.950 starfsmönnum með hópuppsögnum í októbermánuði.

Verst hafa hópuppsagnirnar bitnað á  fjármálastarfsemi en um það bil 20% hópuppsagna í október eru úr þeim geira, segir greiningardeildin.

Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar koma tæplega 14% uppsagnanna úr verslunargeiranum, 11% úr iðnaði sem í langflestum tilvika tengist mannvirkjagerð, 4% starfanna eru í sérfræði- og útgáfustarfsemi og loks eru tæp 4% uppsagnanna úr flutningastarfsemi.

Reikna má með að hópuppsögnum eigi enn eftir að fjölga en nú þegar hafa borist tíðindi af hópuppsögnum í nóvembermánuði, segir greningardeildin.