Hagstofa Íslands hefur birt mannfjöldaspá 2014 til 2065 sem sýnir stærð og samsetningu mannfjölda í framtíðinni. Er spáin byggð á endurnýjuðum tölfræðilíkunum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.

Samkvæmt miðspánni er gert ráð fyrir að íbúar verði 446 þúsund árið 2065 bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 326 þúsund 1. janúar 2014.

Í háspánni er gert ráð fyrir 531 þúsund íbúum í lok spátímabilsins en 377 þúsund samkvæmt lágspánni. Fæddir verða fleiri en dánir á hverju ári spátímabilsins í mið- og háspá. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2046.

Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2014 geta vænst þess að verða 83,4 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,5 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2065 geta vænst þess að verða 88,6 ára en drengir 84,3 ára.

Nánar má lesa um mannfjöldaspána hér .