*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Innlent 15. júní 2019 15:05

448 milljóna sala

Hlutur Auðar I í Íslenska gámafélaginu var seldur á 448 milljónir króna á síðasta ári.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Framtakssjóðurinn Auður I sem rekinn er af Kviku banka seldi á síðasta ári 50% hlut sinn í Íslenska gámafélaginu fyrir 448 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins fyrir síðasta ár. Í nóvember á síðasta ári var greint frá því að Jón Þórir Frantzson og Ólafur Thordersen hefðu keypt meirihluta í Íslenska gámafélaginu af Auði og Gufunesi ehf. Miðað við söluverð á helmingshlutnum nemur heildarverðmæti Íslenska gámafélagsins því 896 milljónum króna.

Samkvæmt ársreikningnum tapaði Auður I 109 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 166 milljóna hagnað árið 2017. Kemur breytingin að mestu til af því að matsbreytingar fjárfestinga voru jákvæðar um 222 milljónir árið 2017 en neikvæðar um 96 milljónir á síðasta ári. Eina hlutafjáreign sjóðsins er nú 80,7%, óbeinn hlutur í Já.is sem metinn er á 575 milljónir.