*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 26. september 2021 12:29

4,5 milljarða hagnaður Klasa

Hagnaður Klasa skýrist að miklu leyti af áhrifum dótturfélags um Borgarhöfðasvæðið, sem fært hefur verið upp nær matsvirði.

Ritstjórn
Krossamýrartorg verður hjartað í nýja borgarhlutanum, Borgarhöfða.
ASK arkítektar

Fasteignaþróunarfélagið Klasi ehf. hagnaðist um tæpa 4,5 milljarða króna á síðasta ári, en árið 2019 nam hagnaður félagsins um 49 milljónum króna. Hin mikla aukning milli ára skýrist að mestu af áhrifum dótturfélaga sem námu í heildina tæpum 4,3 milljörðum króna, mest vegna Borgarhöfða fasteignaþróunar ehf. sem var fært upp um rétt rúmlega fjóra milljarða. Um er að ræða uppbyggingarverkefni Klasa á svæði á Ártúnshöfða sem nefnt hefur verið Borgarhöfði.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir í samtali við Viðskiptablaðið að téðar eignir hafi með þessu verið færðar upp nær matsvirði, en þær voru á sínum tíma bókaðar á afskrifuðu kaupverði. Eignirnar hafa lengi verið í eigu félagsins, sumar allt frá árinu 2005. Hann segir skipulagsvinnu langt komna og að vonir standi til að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Eiginfjárhlutfall nú 93,5%

Leigutekjur Klasa námu 38,4 milljónum króna, það er rétt um milljón lægra en árið áður. Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna og fasteigna tvöfaldaðist aftur á móti milli ára og lækkuðu hreinar leigutekjur því úr tæpum 25 milljónum króna í 8 milljónir. Rétt er þó að geta þess að rekstur eigna fer nær eingöngu fram innan dótturfélaga Klasa.

Alls nam rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu 2,7 milljónum króna, sem er jákvæður viðsnúningur frá fyrra ári þegar það nam tæpum 38 milljónum. Munaði þar mest um auknar tekjur af seldri þjónustu en þær jukust úr 115 milljónum í 190 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 212 milljónum króna, samanborið við neikvæðar 76 milljónir árið 2019.

Eignir félagsins námu 6,2 milljörðum í lok síðasta árs, samanborið við 3,3 milljarða á sama tíma árið 2019. Eigið fé nam 5,8 milljörðum króna, samanborið við 1,6 milljarða ári fyrr, en skuldir lækkuðu úr 1,7 milljörðum króna árið 2019 í 404 milljónir nú um áramót. Fyrir vikið jókst eiginfjárhlutfall félagsins milli ára úr 49,2% í 93,5%.

Fyrir handvömm blaðamanns voru upplýsingar um eignir Klasa ehf. rangar í prentútgáfu blaðsins. Upplýsingarnar hafa verið leiðréttar hér og biðst blaðamaður auðmjúklega afsökunar á mistökunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér