Forstjóri Stoða Invest segir að skuldabréf sem félagið á frá Nyhedsavisen sé hluti heildarfjárfestingar í félaginu.

„Við höfum alls sett 450 milljónir danskra króna í verkefnið frá upphafi ,“ segir Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, í samtali við Viðskiptablaðið.

Á undanförnum dögum hefur verið rætt og ritað um hugsanlega breytingu hluta af skuld Nyhedsavisen við Stoðir Invest í hlutafé.

Þórdís segir það ekki vera ætlunina: „Heildarfjárfesting okkar í Nyhedsavisen nemur 450 milljónum danskra króna, og þar meðtalið skuldabréf upp á 250 milljónir.

Stærstur hluti þessara peninga kom hins vegar inn þegar gengi dönsku krónunnar var nálægt 11 íslenskum.“ Því má ætla að framlag Stoða Invest til rekstursins nemi 5 til 7 milljörðum króna. Þegar Morten Lund kom inn í reksturinn um áramótin var hluta fjárfestingar Stoða Invest í útgáfu Nyhedsavisen breytt í áðurnefnt skuldabréf. „Við sömdum um að 250 milljónum yrði ekki breytt í hlutafé, heldur yrði áfram lán.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .