Halli varð á rekstri Reykjanesbæjar fyrir árið 2015. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins eftir afskriftir og fjármagnsliði nam 455,4 milljónum króna. Áætlað var að hallinn yrði 507 milljónir.

Rekstrartekjur bæjarins námu um 17,5 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld námu þá tæplega 6 milljörðum króna. Um 939 manns starfa hjá sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í ársreikningi sveitarfélagsins

Heildareignir bæjarins eru rúmir 50 milljarðar króna. Þar af eru 43,6 milljarðar skuldir og 6,4 milljarðar eigið fé. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á tæp 13%. Íbúafjöldi í Reykjanesbæ jókst milli ára um ríflega 2,07%, en hann var 15.233 manns í lok árs 2015.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir skömmu síðan óskaði bæjarstjórn Reykjanesbæjar eftir að innanríkisráðuneytið skipaði fjárhaldsstjórn yfir bænum. Meirihluti kröfuhafa Reykjanesbæjar og -hafnar synjaði því að ganga til samninga á grundvelli samkomulags um fjárhagslega endurskipulagninu Reykjanesbæjar. Niðurfærsluþörf sveitarfélagsins hefði þá numið rúmum 6,3 milljörðum króna.