Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi mældist 4,6% í desember 2021 en þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka mældist 79,2% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 75,5%.

Á tilkynningu á vef Hagstofu segir að árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis hafi verið 4,9% í desember og dregist saman um 0,6 prósentustig síðustu sex mánuði frá júlí 2021. Árstíðaleiðrétt leitni hlutfalls starfandi hafi aukist um hálft prósentustig síðustu sex mánuði.

Þá segir að samkvæmt mælingu án árstíðaleiðréttingar, sé áætlað að 208.900 (±6.800) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í desember 2021 sem jafngildi 78% (±2,5) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu hafi 199.700 (±5.400) verið starfandi og 9.200 (±2.700) atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda mældist þannig 74,6% (±2,7) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 4,4% (±1,3) og starfandi unnu að jafnaði 32,5 (±1,0) stundir á viku í desember 2021. Fram kemur að samanburður við desember 2020 sýni að atvinnuleysi hafi dregist saman um 2,5 prósentustig á milli ára og hlutfall starfandi aukist um þrjú prósentustig.

12,4% slaki á vinnumarkaði

Áætlað er að 27.300 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) sem jafngildir 12,4% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 33,4% atvinnulausir, 31,6% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 9,3% í atvinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 25,7% starfandi í hlutastarfi og vilja vinna meira (vinnulitlir). Ef við berum saman gögnin við desember 2020 má sjá að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað um 4,4 prósentustig á milli ára. Árstíðaleiðrétt leitni slaka hefur lækkað lítillega á síðustu sex mánuðum eða um 0,4 prósentustig.