Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands mældist atvinnuleysi 4,6% í júní. Hlutfall atvinnulausra minnkar um 1,8 prósentustig milli ára. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Í júní voru að jafnaði 195.400 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 186.300 starfandi og 9.000 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 85,3% og hlutfall starfandi 81,4%. Atvinnuþátttaka eykst um eitt prósentustig og hlutfall starfandi um 2,5 prósentustig, frá sama tímabili í fyrra.

Atvinnuleysi á meðal 16-24 ára mældist 6,8% í júní, meðan það var 4,1% hjá 25 ára og eldri.

Þegar leiðrétt er fyrir árstíðasveiflum voru 9700 atvinnulausir í júní og jókst atvinnuleysi um 0,3 prósentustig frá maí. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi mælist 5,2%.