Ástralska mannréttindastofnunin Walk Free Foundation gaf út sína árlegu þrælahaldsvísitölu í dag, þriðjudag, en vísitalan mælir hversu margir eru hnepptir í þrælahald að hverju sinni. Samkvæmt rannsóknum stofnunarinnar eru 46 milljón manns föst í þrælahaldi. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Þrælahald er þá skilgreint sem „ástand þrælkunar eða nýtingar sem fólk er fast í gegn hótunum um ofbeldi eða vegna þess að þeim er haldið í blekkingum um raunverulega stöðu mála.”

Könnunin var framkvæmd í 25 löndum og tekin voru viðtöl við meira en 42 þúsund manns. Hún leiddi meðal annars í ljós að Asíuríki voru heimili flestra þræla á jörðinni, eða um 60% þeirra. Þá voru flestir þrælar í einu landi metnir til að vera í Indlandi en hæsta hlutfall þeirra í Norður-Kóreu.