Nú um mánaðarmótin voru 46 starfsmenn Arion banka, sem starfa í útibúum bankans vítt og breitt um landið, brautskráðir úr sérhæfðu undirbúningsnámi í fjármálaráðgjöf frá Háskólanum á Bifröst. Námið er liður í samstarfsverkefni Arion banka og háskólans sem hófst haustið 2010.  Í ljósi góðrar reynslu má gera ráð fyrir að meira kveði að slíku samstarfi í framtíðinni að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Námið er afrakstur þarfagreiningar meðal starfsmanna Arion og upp úr þeirri vinnu kom til samstarf við Háskólann á Bifröst sem þróaði tillögurnar áfram í samvinnu við bankann. Námið stunduðu starfsmenn að hluta til í gegnum fjarnámsvef skólans en einnig fór kennsla fram á vinnulotum á Bifröst og í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Í tilkynningu kemur fram að fyrr á árinu hafi 300 starfsmenn bankans lokið umfangsmiklu námi um vörur og kerfi sem alfarið hafi farið fram í fjarnámi. „Það er óhætt að segja að mikill metnaður hafi verið lagður í verkefnið af hálfu bankans sem og Háskólans á Bifröst en verkefnið er það umfangsmesta sem skólinn hefur tekið að sér fyrir fyrirtæki í atvinnulífinu. Arion banki hefur unnið mikið brautryðjendastarf fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði og haft hugrekki til að fara nýjar leiðir við að koma námi á framfæri til starfsfólks, með blöndu af fjarnámi og vinnulotum á Bifröst“ sagði Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst við útskriftarathöfnina.