*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 14. maí 2020 15:58

465 milljóna tap hjá Sjóvá

10% viðskiptavina Sjóvá starfa í ferðaþjónustu. Tap af fjárfestingum dró afkomuna niður í upphafi árs.

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.

Sjóvá tapaði 465 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Stafar það fyrst og fremst af tapi á fjárfestingum sem nam 552 milljónum króna á fjórðungnum. Hins vegar var 185 milljóna króna hagnaður á vátryggingarstarfsemi félagsins.

Til samanburðar var 522 milljóna hagnaður á vátryggingastarfsemi félagsins á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs og 658 milljóna króna hagnaður af fjárfestingastarfsemi.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, telur afkomuna viðunandi miðað við aðstæður. „Segja má að afkoman fyrir 1. ársfjórðung 2020 hafi verið ákveðinn varnarsigur,“ og bendir á að einn stórbruni hafi orðið á fjórðungnum. 

„Samsett hlutfall fyrir fjórðunginn nam 98,5%. Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög sveiflukennd á ekki lengri tíma en 3 mánuðum. Árið fór mjög vel af stað allt þar til verð tók að falla á hlutabréfamarkaði en skuldabréfamarkaður hefur skilað ágætri ávöxtun sem vegur upp á móti tapi af skráðum hlutabréfum,“ segir Hermann.

Sjóvá nam afkomuspá sína úr gildi í mars vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins en stefnt er að því að birta nýja eftir uppgjör annars ársfjórðungs. Um 10% iðgjalda Sjóvár árið 2019 voru beintengd fyrirtækjum í ferðaþjónustu líkt og bílaleigum, hópferðabílum, hótelum og flugfélögum. „Þetta er sá hópur fyrirtækja sem finnur hvað mest fyrir efnahagssamdrætti tengdum COVID-19 faraldrinum. Mikill metnaður hefur verið lagður í að vinna náið með þessum fyrirtækjum, líkt og öllum okkar viðskiptavinum, við að leysa úr þeirri flóknu stöðu sem upp er komin. Vert er að halda því til haga að jafnhliða minnkandi tekjum frá þessum aðilum þá dregur úr áhættu þeim tengdum í formi tjóna,“ segir Hermann.

Víkjandi skuldabréfaútgáfa í kortunum

Þá segir Hermann að félagið stefni á útgáfu víkjandi skuldabréfs eftir að úrskurður yfirskattanefndar féll félaginu í hag. Yfirskattanefnd komst að heimilt sé að gjaldfæra vexti af víkjandi skuldabréfum líkt eins og Viðskiptablaðið fjallað um. Félagið stefndi upphaflega af því að gefa út víkjandi skuldabréf árið 2018 en hefur beðið niðurstöðu yfirskattanefndar.