Heildarfjöldi greiddra gistinátta í maí síðastliðnum dróst saman um 89% samanborið við maí 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 88% og um 86% á gistiheimilum. Frá þessu er greint á vef Hagstofu.

Í lok mars tóku mörg hótel þá ákvörðun að loka tímabundið og voru 47 hótel lokuð í maí en 75 hótel voru lokuð í apríl.

Gistinætur á hótelum voru 37.094 talsins í maí samanborið við 315.015 á sama tíma í fyrra. Gistinætur á hótelum hjá erlendum gestum voru 2.956 og fækkaði um 99%, gistináttum hjá Íslendingum fækkaði um 11% milli ára.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 76.000 í maí en þær voru um 660.000 í sama mánuði árið áður. Um 87% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 66.000, en um 13% á erlenda gesti eða um 10.000 nætur.

Framboð gistirýmis minnkaði um 26,5% frá maí 2019, mælt í fjölda hótelherbergja, sem skýrist af lokunum hótela. Herbergjanýting á hótelum í maí 2020 var 8,9% og dróst saman um 46,8 prósentustig frá fyrra ári.