Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, nam 47 milljónum króna í fyrra. Árið á undan hafði það verið 205 milljónir. Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu í dag .

Heildartekjur Árvakurs námu 3.155 milljónum króna í fyrra, sem er aukning um 5% frá árinu á undan. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 101 milljón króna og jókst um rúmar 60 milljónir króna frá fyrra ári.

Í Morgunblaðinu í dag segir að þetta hafi verið umtalsvert meiri rekstrarhagnaður en áætlaður hafði verið.

Eigið fé í árslok 2012 var 975 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið var 44%. Hlutafé var aukið um 540 milljónir króna árið 2012 og var það hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu sem fram fór árið 2011.