Þýski ljósaperuframleiðandinn Osram hyggst segja upp fólki og selja verksmiðjur sem hluta af sparnaðaraðgerðum til að hagræða í rekstri fyrirtækisins. Í því felst að allt að 4700 manns missir vinnuna og þar af 400 í Þýskalandi. Áður hafði fyrirtækið lýst því yfir að það hygðist segja upp um 3300 manns.

Með aðgerðunum ætlar Osram að spara um milljarð evra, eða um 163 milljarða íslenskra króna, fram til ársins 2015. Ljóst er að fyrirtækinu hefur ekki gengið nægjanlega vel að undanförnu í samkeppni sinni við Philips, Samsung og LG. Osram hefur meðal annars misst markaðshlutdeild á hinum hefðbundna ljósaperumarkaði.