Í nýlegri könnun MMR voru 47,9% svarenda andvígir því að Íslandi gangi í Evrópusambandsins. Á móti voru 29% svarenda hlynntir því að Ísland gangi í sambandið. Hægt er að glöggva sig á niðurstöðunum hér. 31,7% voru mjög andvígir en 16,2% voru frekar andvígir. 23,1% voru hvorki hlynntir né andvígir. 17,7% voru frekar hlynntir og 11,3% voru mjög hlynntir inngöngu Íslands í ESB.

Litlar breytingar hafa verið á afstöðu almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB undanfarin þrjú ár. Ef litið er hins vegar til samanburðar til seinnihluta ársins 2012 hefur andvígum fækkað um rúmlega 10 prósentustig þegar milli 60 og 65% Íslendinga kváðust andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Á sama tímabili hefur hlynntum fjölgað um 5 til 10 prósentustig.

Stuðningsfólks Samfylkinginnar vill enn inngöngu

Þegar afstaða almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB var skoðuð eftir samfélagshópum kom í ljós að fólk sem var búsett á höfuðborgarsvæðinu var hlynntara inngöngu Íslands í ESB heldur en fólk sem búsett er á landsbyggðinni. Fólk í aldurshópnum 50 til 67 ára og með milljón á mánuði eða meira í heimilistekjur voru líklegust til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum.

Þá var stuðningsfólk Framsóknar  (89,2%) og Sjálfstæðisflokksins (78,1%) líklegra en stuðningsfólk annarra hópa til að vera andvígt inngöngu Íslands í ESB. Aftur á móti var stuðningsfólk Samfylkingarinnar (77,3%) líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við stuðningsfólk annarra flokka. Þá var fleira stuðningsfólk Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Pírata og Viðreisnar sem sögðust hlynnt inngöngu Íslands í ESB en kváðust á móti inngöngu.