Tækniþróunarsjóður ákvað í vikunni að bjóða 48 fyrirtækjum að ganga til samninga til að fá úthlutun úr sjóðnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rannís.

Alls fá 7 fyrirtæki að ganga til samninga vegna frumherjastyrks, 23 fyrirtæki vegna verkefnisstyrks og 18 fyrirtæki vegna markaðsstyrks. Áætlað er að fyrirtækin hljóti styrk fyrir allt að 600 milljónum á næsta ári en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvað hvert fyrirtæki hlýtur í styrktarupphæð.

Framlög til sjóðsins fyrir árið sem er að líða námu 1.372,5 milljónum króna. Á síðasta ári voru alls 943 milljónir veittar í styrk úr sjóðnum, þar af voru 575 milljónir í nýja styrki og 368 milljónir í framhaldsstyrki. Áætlað er að framlög til Tækniþróunarsjóðs hækki um 975 milljónir á fjárlögum 2016 og hafi sjóðurinn því alls 2.347,5 milljónir til ráðstöfunar.