Fljótlega í kjölfar bankahrunsins versnaði afkoma Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til muna. Árið 2011 var brugðist við vandanum með aðgerðaáætlun, sem nefnd hefur verið „planið“. OR sendi í vikunni frá sér skýrslu þar sem finna má fjárhagsspá fyrir árið 2017 og langtímaspá fyrir tímabilið frá 2018 til 2022. Í skýrslunni kemur ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós.

„Leiðrétting“ gjaldskrár

Sérstaka athygli vekur að auknar tekjur vegna „leiðréttingar“ gjaldskrár, eins og það er kallað, nema 9,9 milljörðum króna á tímabilinu frá 2011 fram á mitt ár 2016, eða 2,7 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í planinu. Þessar leiðréttingar eru hækkanir á gjaldskrá OR-samstæðunnar.

Viðskiptablaðið hefur skoðað rafmagnsreikninga frá árinu 2010 til 2016 og á þessum tíma hefur raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs. Verð á kílóvattstund af raforku hefur hækkað um 48%, dreifing raforku hefur hækkað um 68% og flutningur um 22%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 23%.

Þetta þýðir að rafmagnsreikningur meðalstórs heimilis, sem notar 350 kílóvattstundir af raforku á mánuði, hefur hækkað úr 48.600 krónum á ári í 74.700 krónur. Hækkunin nemur 26.000 krónum. Ef gjaldskrá OR hefði fylgt vísitölu neysluverðs væri rafmagnsreikningurinn 59.800 krónur.

Almenningur njóti árangursins

Gjaldskrá OR kom inn á borð borgarráðs Reykjavíkur í síðustu viku og borgarstjórnar í síðasta mánuði. Lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að því yrði beint til „Orkuveitu Reykjavíkur að skoða og gera áætlun um hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili“. Í ljós bættrar fjárhagsstöðu Orkuveitunnar töldu sjálfstæðismenn eðlilegt að skoða hvort lækka mætti gjöldin.

Í bókun þeirra kemur fram að þeir telji sanngjarnt að almenningur, sem tók á sig hækkanir, fái að njóta árangurs fyrirtækisins. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, sem mynda meirihluta í borginni, felldu tillöguna.