Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Mjólkursamsölunnar gegn Samkeppniseftirlitnu. Niðurstaðan felur í sér að MS þarf að greiða 480 milljónir króna í ríkissjóð í sekt vegna brota á samkeppnislögum.

Málið á rætur að rekja til ársins 2012 þegar MS sendi fyrir misgáning reikning á Mjólkurbúið Kú ehf. en þar kom í ljós að Kú greiddi mun hærra verð fyrir hrámjólk en keppinautur sinn. Kvörtun var send SKE af þeim sökum.

Árið 2014 komst SKE að þeirri niðurstöður að MS hefði brotið gegn samkeppnislögum og lagði 370 milljón króna stjórnvaldssekt á félagið. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þann úrskurð úr gildi og sendi málið á ný til SKE. Ný ákvörðun var tekin í júlí 2016 og var það niðurstaða SKE þá að MS bæri að greiða 480 milljónir króna í sekt, 440 milljónir króna í sekt fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga og 40 milljónir fyrir brot gegn 19. gr. laganna.

Málið fór á ný til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðunina úr gildi að hluta. Eftir hana stóð 40 milljón króna sektin óhreyfð. Báðir aðilar stefndu málinu fyrir dóm og komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu. Héraðsdómur hafnaði því að fella 40 milljón króna sektina úr gildi, sem var krafa MS, og féllst á kröfu SKE um að fella úr gildi úrskurð nefndarinnar þannig að 440 milljón króna sektin tók gildi að nýju.

Með dómi sínum hefur Landsréttur staðfest dóm héraðsdóms og þarf því að greiða 480 milljón krónur í sekt. Því til viðbótar ber fyrirtækinu að greiða SKE tvær milljónir króna í málskostnað fyrir Landsrétti.