Stærsta frumútboði hlutabréfa í Íslandssögunni hingað til er lokið en þar var á ferð sala á 35% hlut í Íslandsbanka. Verð á hverjum útboðshlut var á endanum 79 krónur og verður fjöldi hluthafa 24 þúsund. Eftirspurn í útboðinu var nam 486 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Alls voru seldir ríflega 636 milljónir hluta að nafnvirði en heildarandsöluvirði útboðsins, að því gefnu að valréttir til að mæta umframeftirspurn verði nýttir, er 55,3 milljarðar króna. Það er augljóslega nokkuð undir þeim 486 milljarða tilboðum sem bárust, strangt til tekið var eftirspurnin níföld. Leitast verður við að skerða ekki tilboð sem bárust undir einni milljón króna.

Sem fyrr segir verður fjöldi hluthafa að útboði loknu um 24 þúsund en það er mesti fjöldi hluthafa í skráðu félagi. Innlendir fjárfestar munu fara með um 24% hlut en erlendir með um 11%. Ríkið mun áfram eiga 65%. Markaðsvirði bankans, miðað við útboðsgengi, er 158 milljarðar króna.

„Það er ánægjulegt að sjá niðurstöður úr vel heppnuðu útboði Íslandsbanka. Mikil eftirspurn og þátttaka almennings er sérstaklega ánægjuleg, en hluthafar í Íslandsbanka verða þannig flestir af öllum skráðum félögum á íslenskum markaði. Leiðir þetta ekki síst af þeirri ákvörðun að heimila áskriftir allt niður í 50 þúsund krónur og að láta áskriftir einstaklinga allt að einni milljón króna óskertar. Salan er ábatasöm fyrir ríkissjóð og kemur sér vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan er næstu misseri. Mestu skiptir þó að við tökum hér fyrsta skrefið í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri og færumst nær heilbrigðara umhverfi líkt og þekkist á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum okkar,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra.

Áætlað er að viðskipti með bréf í bankanum hefjist á aðalmarkaði þann 22. júní næstkomandi en ríkið og bankinn hafa skuldbundið sig til að selja ekki frekari hluti í honum næsta hálfa árið.