49 manns hefur verið sagt upp hjá leikjafyrirtækinu CCP í tengslum við skipulagsbreytingar. Þar af er 27 starfsmönnum sagt upp hér á landi. Skipulagsbreytingarnar eru á útgáfustarfsemi fyrirtækisins en þær eru í tilkynningu sagðar liður í áherslubreytingum CCP í vöruþróun. Lögð verði áhersla á þróun og útgáfu tölvuleikja fyrir einn og sama leikjaheiminn; EVE veröldina. Skipulagsbreytingarnar varða útgáfustarfsemi CCP og hafa ekki áhrif á leikjaþróun fyrirtækisins, að því er segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP, að þetta sé þungbært.

„Í ljósi breyttra aðstæðna, og stefnubreytinga í vöruþróun fyrirtækisins, er ég sannfærður um að þessar skipulagsbreytingar muni til lengri tíma litið styrkja og efla starfsemi CCP,” segir hann.