Nova fékk í gær formlega úthlutuðu 4G rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun og hefur nú, fyrst íslenskra símafyrirtækja, hafið 4G þjónustu á Íslandi. Starfsfólk fyrirtækisins fagnaði áfanganum í morgun og sleppti blöðrum í loftið með táknrænum hætti. Í fyrsta áfanga nær 4G-gagnaflutningsþjónusta Nova til höfuðborgarsvæðisins og SV-hornins.

Fram kemur í tilkynningu frá Nova að 4G netþjónustan er þráðlaus háhraðanettenging sem styður yfir 100 Mb/s nethraða fyrir heimili, vinnustaði og fólk á ferðinni.  Hraði til notenda tekur mið af netbúnaði og aðstæðum en almennt má miða við  20 - 40 Mb/s hraða.

4G netþjónusta Nova stendur fyrir einfaldleika og hraða og er öflugur valkostur við ADSL, Ljósnet og ljósleiðara. Auðvelt er fyrir fólk að taka þjónustuna í notkun. Það þarf t.d. ekki að grafa skurði til að koma þjónustunni í hús né taka á móti netsérfræðingi á heimilið fyrir uppsetningu, heldur einfaldlega kaupa box, ferðabox eða pung, stinga í samband og þá er komið ofurhratt netsamband.

Margir kveðja heimasímann

Haft er eftir Liv Berþórsdóttur, framkvæmdastjóra Nova, að símanotkun fólks hafi breyst.

„Sífellt stærri hópur hefur ekkert við heimasíma að gera og lætur farsímann duga, sjónvarpsáhorf færist á netið og fólk vill geta tekið allt með sér hvert sem það fer. Farsíminn er framlenging á heimasímanum og spjaldtölvan og fartölvan að sama skapi framlenging á sjónvarpinu heima í stofu. 4G netþjónusta Nova tekur mið af því,“ segir hún.