Greining Íslandsbanka telur að einkaneysluvöxturinn á 1. ársfjórðungi gæti reynst 5-6% frá sama tíma í fyrra. Ef sú verður raunin verður það hraðasti vöxtur einkaneyslu a.m.k. frá 2. ársfjórðungi 2011, ef ekki lengur. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir þó að það verði að taka inn í reikninginn að einkaneysla hafi verið með rýrara móti á 1. ársfjórðungi 2013, og mældist ársvöxtur hennar þá aðeins 0,6%.

„Það má hins vegar spyrja hvort innistæða er fyrir svo hröðum vexti einkaneyslunnar um þessar mundir. Vissulega leggst ýmislegt á sveif með heimilunum þessa dagana. Verðbólga er með minnsta móti, kaupmáttur launa óx um u.þ.b. 3,0% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra og atvinnuleysi hefur reynst nokkru minna í vetur en í fyrravetur,“ segir í Morgunkorninu

Þá hafi tekjuskattur í miðþrepi lækkað, sem eykur ráðstöfunartekjur eftir skatta meira en sem nemur breytingu kaupmáttar launa. Síðast en ekki síst hafi verð hlutabréfa og fasteigna hækkað allhratt á síðasta ári, og hreinn auður heimila aukist að sama skapi.