Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra um 5 milljarða króna lántöku til að fjármagna framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á árinu 2009. Lánið er tekið með skuldabréfaútboði til 45 ára en nú þegar liggja fyrir skuldbindandi fyrirheit frá lífeyrissjóðum um kaup á 5 milljörðum segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að lánið er tekið til að fjármagna framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 í samræmi við sameiginlegan vilja borgarstjórnar sem endurspeglast í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar um að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og forgangsraða þeim í þágu atvinnustigs.

Framkvæmda- og eignaráð hefur í tengslum við lántökuna forgangsraðað framkvæmdum en áætlað er að með þeim verði hægt að tryggja allt að 650 störf í Reykjavík. Fyrir utan þessar nýframkvæmdir sem hafa nú verið fjármagnaðar leggur Reykjavíkurborg um 3,5 milljarða króna í viðhald gatna, opinna svæða og fasteigna en áætlað er að þær viðhaldsframkvæmdir skapi til viðbótar allt að 350 aðkeypt störf á árinu, fyrir utan störf borgarstarfsmanna.

„Það sýnir fjárhagslegan styrk og góða stöðu Reykjavíkurborgar að við skulum fá svona gott lán á ásættanlegum kjörum frá lífeyrissjóðunum til að efla framkvæmdir og atvinnu. Framkvæmdir geta nú hafist af fullum krafti.“ segir Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og framkvæmda- og eignaráðs segir í tilkynningu.