Google hefur verið kært í Bandaríkjunum vegna ásakana um að netrisinn hafi ólöglega brotið gegn friðhelgi notenda með því að rekja spor þeirra þegar þeir vafra um vefinn þrátt fyrir að notast sé við huliðsstillingu í vafranum eða eins og heitir á enskri tungu, „Incognito“.

Hóplögsóknin heimtar að minnsta kosti 5 milljarða Bandaríkjadala eða sem samsvarar 675 milljörðum íslenskra króna frá Alphabet, móðurfélagi Google.

Talið er að milljónir notenda Google sem hafa notað svokallaða incognito stillinguna frá 1. júní 2016 séu hluti af lögsókninni samkvæmt lögfræðistofunni Boies Schiller Flexner sem lagði fram ákæruna á þriðjudaginn í alríkisdómstóli í San Jose, Kaliforníu.

Incognito stillingin innan Google Chrome vafrans gefur notendum valkostinn að vafra á netinu án þess að hreyfingar þeirra séu vistaðar á vafranum eða á þeim tækjum sem notast er við. Hins vegar geta vefsíður sem notendur heimsækja notað tól líkt og Google Analytics til þess að fylgjast með aðsókn á síðunni.

Segja fyrirtækið stunda dulda gagnasöfnun

Í ákærunni segir að Google „geti ekki haldið áfram að stunda dulda og óheimilaða gagnasöfnun frá nánast öllum Bandaríkjamönnum með tölvur eða síma“. Talsmenn Google þverneita því að athæfi fyrirtækisins hafi verið ólögleg og segja að það hafi legið skýrt fyrir notendum hvaða gögn fyrirtækið safnar í incognito stillingunni.

„Líkt og við segjum í hvert skipti sem notendur opna nýjan incognito flipa, þá geta vefsíður safnað upplýsingum um hreyfingar þínar á vafranum,“ er haft eftir Jose Castandeda, talsmanni Google í frétt BBC .

Fyrirtækið segir að söfnun gagna um hreyfingar notenda á vefnum, jafnvel þegar notendur velja prívat stillingar, hjálpi eigendum vefsíða að meta betur frammistöðu síðanna, vara og markaðssetningu.