Skiptum hefur verið lokið á búi Helgafellsbygginga hf. en lýstar kröfur í búið voru tæpir fimm milljarðar að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Aðeins fengust tæpar 13 milljónir upp í kröfurnar.

Viðskiptablaðið fjallaði um það árið 2013 að Helgafellsbyggingar hefðu verið teknar til gjaldþrotaskipta en fyrirtækið ætlaði sér að reisa 1.000 íbúða byggð í Mosfellsbæ. Það gerðist hins vegar ekki og fyrirtækið endaði í gjaldþroti en um áramótin 2011 var eigið fé þess neikvætt um tæpa 4,5 milljarða króna og það skuldaði rúma 12 milljarða.

Í lok árs 2011 var eignarhald þess með þeim hætti að Landsbankinn í Lúxemborg átti 87,5% hlut en Hilmar R. Konráðsson átti 12,5% hlut.