Halli á samstæðu Reykjavíkurborgar nam 4,9 milljarði króna árið 2015. Áætlanir gerðu ráð fyrir 7,4 milljarða króna afgangi. Rekstur samstæðunnar var því 12,4 milljörðum króna lakari en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem birtur var í dag.

13,6 milljarða króna halli varð þá á rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á árinu. Gert hafði verið ráð fyrir 622 milljóna króna halla. Rekstur A-hluta var því 13 milljörðum króna neikvæðari en við hafði verið búist. Helst voru það lífeyrisskuldbindingar borgarinnar, sem greiddar verða í framtíðinni, sem valda þessum halla.

Samstæða borgarinnar samanstendur af A- og B-hluta, þar sem A-hluti er kjarnarekstur borgarinnar, sem fjármagnaður er með skatttekjum, og B-hluti sem heldur utan um eignir borgarinnar í fyrirtækjum sem eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, svo sem Orkuveita Reykjavíkur.

Rekstrartekjur A-hluta borgarinnar námu 91 milljarði króna á árinu liðna. Skatttekjur þaðan af námu 69,2 milljörðum króna. Álagningarhlutfall útsvars var þá 14,52% sem er lögbundið hámark. Rekstrartekjur samstæðunnar í heild námu þá 143,9 milljörðum króna á árinu.

Eignir Reykjavíkurborgar þegar A- og B-hlutar eru taldir saman námu 525 milljörðum króna. Þar af voru skuldir og skuldbindingar 301,5 milljarður króna. Eigið fé nam þá 224 milljörðum króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 42%. Eignir samstæðunnar jukust um 21 milljarð milli ára og eignir A-hluta um 2 milljarða.

Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar jukust um 13 milljarða króna milli ára og má helst rekja þá aukningu eins og fyrr segir til aukningu lífeyrisskuldbindinga og tekjuskattsskuldbindinga. Langtímaskuldir borgarinnar drógust þá saman um 7 milljarða króna meðan skammtímaskuldir hennar jukust um 5,5 milljarða króna.