Laugar ehf. greiddi einungis 5 milljónir króna í reiðufé þegar félagið keypti rekstrareignir World Class-líkamsræktarstöðvanna af Þreki ehf. í september 2009. Til viðbótar tóku Laugar yfir skuldbindingar vegna starfsmanna félagsins að andvirði 20 milljónir króna. Þar af voru 15,3 milljónir króna sagðar vegna uppsagnarfrests starfsmanna en afgangurinn vegna uppsafnaðs orlofs og veikindadaga. Laugar yfirtóku hins vegar alla ráðningarsamninga starfsmanna og því reyndist ekki nauðsynlegt að greiða neinn uppsagnarfrest. Skiptastjóri telur rekstrarvirði World Class allt að 960 milljónir króna. Kröfur í búið nema um 2,2 milljörðum króna.

Þrek ehf. og Laugar eru bæði í eigu Björns Leifssonar, eiginkonu hans, Hafdísar Jónsdóttur, eða aðila þeim tengdum. Laugar skiluðu 133 milljóna króna hagnaði fyrir fjárhagsliði á árinu 2009. Félagið skilaði hins vegar heildartapi upp á 155 milljónir króna í fyrra vegna þess að Laugar afskrifuðu útistandandi skuldabréf og hlutafé sem félagið átti í Nýsi, sem er gjaldþrota.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .