Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um 11.085 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 6.063 milljónir. Rekstrarniðurstaðan er því 5.022 milljónum betri en gert var ráð fyrir. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir janúar til september árið 2014 en hann var staðfestur í borgarráði í dag.

Helstu ástæður má rekja annars vegar til tekjufærslu matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 13.260 milljónir króna sem er 288 milljónum lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok september samtals 492.443 milljónum króna, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 286.716 milljónir og eigið fé nam 205.726 milljónum en þar af nam hlutdeild meðeigenda 10.824 milljónum.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 377 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 192 milljónum króna á tímabilinu og er niðurstaðan því lakari en gert var ráð fyrir, sem nemur 569 milljónum.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 272 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 416 milljónir eða 688 milljónum lakari en áætlun gerði ráð fyrir.   Lakari rekstrarniðurstaða skýrist meðal annars af minni tekjum af sölu byggingaréttar en áætlun gerði ráð fyrir og af tapi af sölu fasteigna sem ekki var áætlað fyrir.