Verðbólga á evrusvæðinu náði nýjum hæðum í desembermánuði siðastliðnum, samkvæmt bráðabirgðatölum sem Eurostat birti í dag. Samkvæmt skýrslunni mældist verðbólga 5% í desembermánuði, sem yrði mesta verðbólga á evrusvæðinu síðan mælingar hófust árið 1997, en verðbólgan mældist 4,9% í nóvember. Í byrjun árs 2021 mældist hún einungis 0,9%.

Áætlað er að orkuverð muni áfram leiða verðbólguna og mældist árshækkun orkuverðs 26% í desembermánuði samanborið við 27,5% í nóvembermánuði. Verðbólgan mælist mest í Eistlandi, af öllum ríkjum Evrópusambandsins, þar sem hún er 12%. Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 2,6% á evrusvæðinu í desember, en verðbólgumarkmið Evrópska seðlabankans er 2,0%.

Evrópski seðlabankinn spáir því að verðbólga verði komin undir 2% árið 2023, en gerir ráð fyrir að hún verði áfram yfir verðbólgumarkmiði á þessu ári. Bankinn hefur gefið út að hann muni draga úr mánaðarlegum skuldabréfakaupum sínum til að stemma stigu við verðbólgunni, að því er kemur fram í grein CNBC.