Marel ætlar að flytja starfsemi sína í Oss í Hollandi til Boxmeer. Markmiðið með breytingunum er samþætting í rekstri starfseininganna, að styðja við bætta markaðsstöðu með því að auka nýtingu á starfskröftum í nýsköpun og framleiðslu og lækka kostnað. Fram kemur í tilkynningu Marel að aðgerðir þessar muni hafa í för með sér kostnað og ávinning í samræmi við áætlun fyrirtækisins um skýrari rekstraráherslur, sem kynnt var í byrjun ársins. Viðræður eru hafnar við starfsmannaráð og verkalýðsfélög á staðnum vegna endurskipulagningarinnar. Stefnt er á að ljúka þeim fyrir lok þessa árs.

Í tilkynningu Marel segir að stjórnendur fyrirtækisins, starfsmannaráð og verkalýðsfélög munu vinna að samkomulagi vegna þessa og leggja drög að áætlun til að styðja við þá starfsmenn sem aðgerðirnar hafa áhrif á.

Hjá Marel í Oss vinna 140 manns. Starfsemin er einkum bundin við kjötiðnað og framleiðslu auk þess að hýsa sölu- og þjónustuskrifstofu þess fyrir Holland, Belgíu og Luxemborg. Fjörutíu kílómetrar eru á milli Oss og Boxmeer.