Hin svokallaða útrás hefur verið einkennandi fyrir íslenskan fjármálamarkað síðastliðið ár. Frá síðasta ársfundi Fjármálaeftirlitsins hafa íslensk fjármálafyrirtæki keypt fjóra erlend fjármálafyrirtæki og á stuttum tíma hefur stærð efnahagsreiknings viðskiptabankanna þrefaldast, fyrst og fremst vegna kaupa á erlendum fyrirtækjum. Með auknum umsvifum
erlendis hefur tekjustofn þeirra breikkað og vænta má þess að í árslok muni hátt í 50% af tekjum viðskiptabankanna þriggja vera af erlendri starfsemi.

Þetta kom fram í ræðu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins á aðalfundi þess í gær.

Í ræðu Jónasar kom einnig fram að afkoma innlánsstofnana hefur síðustu misseri almennt verið mjög góð og þó gengishagnaður af verðbréfum skipti þar verulegu máli þá hefur afkoman án tillits til gengishagnaðar einnig batnað. Eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og stærstu sparisjóða hefur á síðustu árum í heild farið hækkandi og er vel yfir lögbundnum lágmörkum. Vægi fjármálaþjónustu fyrir íslenskt efnahagslíf er orðið verulegt og eignir stærstu fyrirtækjanna nema fimmfaldri landsframleiðslu. Hlutdeild fjármálaþjónustu í landsframleiðslu er rúmlega 7% sem er svipað hlutfall og sjávarútvegurinn, samkvæmt skýrslu sem Háskólinn í Reykjavík gerði fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja.