50 ára ávöxtunarkrafa svissneskra ríkisskuldabréfa er nú orðin neikvæð. Þessi staðreynd er nokkuð ótrúleg, enda þýðir hún í raun að fjárfestar eru tilbúnir að sætta sig við neikvæða ávöxtun á fé sínu í svissneskum frönkum næstu hálfa öldina.

Allur vaxtaferill svissneskra ríkisskuldabréfa er nú undir núllinu. Ávöxtunarkrafa 50 ára svissneskra ríkisskuldabréfa var -0,01% í morgun. Krafa stuttra skuldabréfa og lána var hins vegar neikvæð um rúmlega 1 prósent.

Ávöxtunarkrafa á skuldabréfum ríkja á borð við Sviss, Þýskaland og Bandaríkin hefur farið stöðugt lækkandi undanfarin ár. Þróunin hefur verið rakin til þátta á borð við lakari hagvaxtarhorfur og verðhjöðnun.

Krafa ríkisskuldabréfa hefur náð nýjum lægðum undanfarna daga en markaðir búast nú við að stýrivextir lækki enn, meðal annars vegna óvissu í heimsbúskapnum. Ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa er nú neikvæð til allt að 12 ára, en jákvæð um 0,5% til 30 ára. Allur bandaríski vaxtaferillinn er yfir núllinu enn sem komið er.