Góð afkoma var hjá Verðbréfastofunni á síðasta ári en hagnaður félagsins nam 147 milljónum króna. Það er 63% aukning frá árinu 2003 þegar hagnaðurinn nam 90 milljónum króna. Afkoman á síðasta ári samsvarar ávöxtun eigin fjár upp á 48%.

Árið 2004 var félaginu mjög hagstætt og jukust umsvif félagsins á öllum sviðum starfseminnar verulega. Félagið naut mjög góðs af miklum uppgangi á verðbréfamarkaði og þá sérstaklega hlutabréfamarkaði. Þannig hækkaði hlutabréfaverð um nærri 60% á síðasta ári og metvelta varð á markaðnum. Sölu- og umsýsluþóknanir námu 278 milljón en samkvæmt árbók Kauphallar Íslands var markaðshlutdeild Verðbréfastofunnar í kauphallarviðskipum síðasta árs 0,3%. Fjármunatekjur námu 230 milljónum króna og jukust um 142% milli ára. Rekstrartekjur samtals námu 431 milljón króna og jukust um 129 milljónir króna eða 42%.

Gert er ráð fyrir að greiddur verði 30% arður til hluthafa á árinu. Eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi nam 473 milljónum króna að meðtöldu hlutafé að fjárrhæð 124 milljónir króna. Eiginfjárstaða félagsins er mjög sterk sem endurspeglast í eiginfjárhlutfalli upp á 26%.