Stefanía K. Karlsdóttir, einn eigandi Íslenskrar matorku ehf., segir Íslendinga geta velt 50-60 milljörðum á ári ef framleiðsla á fiski sé jöfn fiskframleiðslu Dana.

Á árinu 2010 var sjávarútvegur með um 200 milljarða í útflutningstekjur sem er um 36% af útflutningsverðmætum. Útflutningur á áli er um 230 milljarðar eða um 41% af útflutningsverðmætum. Þessar tvær greinar eru því með um 77% af útflutningsverðmætum. „Við sem þekkjum til í matvælageiranum teljum afar ólíklegt að hægt sé að auka að einhverju marki verðmæti sjávarafurða þar sem litlar líkur eru á auknum afla úr hafi. Hvað stendur þá til boða? Þá er hægt að framleiða matvæli og það ætlum við að gera og það sem Ísland hefur mest upp á að bjóða er fiskeldi. Þannig er það í dag að fiskur á mörkuðum kemur 50% úr fiskeldi og fer vaxandi þannig að veiðar á villtum fiski munu ekki aukast af neinu viti í framtíðinni."

„Ef við horfum til nágrannalanda okkar og berum saman matvælaframleiðslu þá kemur í ljós að Ísland, sem einna ríkast er af auðlindum, er langt að baki nágrannalandanna varðandi framleiðslu á matvælum til útflutnings. Fiskeldisfyrirtæki á Íslandi framleiða í heild um 5.000 tonn á ári samanborið við 50.000 tonn í Danmörku og 1.000.000 tonn í Noregi. Í Danmörku er skortur á vatni, dýrt land og dýr raforka, samt framleiða þeir tífalt meira en Íslendingar og sjá sér hag í því. Danir stefna á að framleiða 120.000 tonn innan fárra ára og eru að ná þorskkvóta Íslendinga. Ef Íslendingar færu að framleiða jafn mikið og Danir, 50.000 tonn, myndi slík framleiðsla velta um 50-60 milljörðum á ári og eru þar af allt að 35 milljarðar hreinar útflutningstekjur. Jafnframt myndu fleiri hundruð störf skapast."

Ítarlegra viðtal við Stefaníu má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.