Annan daginn í röð var Iceland Seafood sem hækkaði mest í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði kauphallarinnar. Rétt tæplega þrjú af hverjum fjórum félögum hækkuðu í viðskiptum dagsins. Á First North markaðnum gerðust þau stórtíðindi að viðskipti áttu sér stað með Sláturfélag Suðurlands.

Virði hlutar í Iceland Seafood hækkaði um 3,13% í dag en hækkunin í gær nam rúmum fimm prósentum. Tvö félög til viðbótar hækkuðu um meira en tvö prósent. Þar var annars vegar VÍS á ferð, með 2,78%, og hins vegar Origo sem hækkaði um 2,19%. Hefur gengi þess síðarnefnda nú hækkað um tæp 14% á einum mánuði og um 104% síðastliðið ár.

Bankarnir þrír, Arion, Kvika og Íslandsbanki hækkuðu allir um rúmt prósent, raunar hækkuðu bæði Arion og Íslandsbanki um 1,28%, en velta með bréf Kviku og Arion var sú mesta innan dagsins. Viðskipti fyrir 1,4 milljarða áttu sér stað með þann fyrrnefnda en 200 milljónum betur hvað Arion varðar.

Reitir hækkuðu um tæp tvö prósent, Sýn um 1,59% og síðasta félagið sem hækkaði um meira en prósent var Sjóvá. Önnur félög sem hækkuðu voru Hagar, Skeljungur, Festi og Síldarvinnslan. Brim, Eik og Eimskip stóðu í stað.

Þrjú félög lækkuðu í viðskiptum dagsins. Mest var lækkunin hjá Icelandair, 1,69%, og þá lækkaði Síminn um 0,81% en velta með bré félagsins nam rúmlega milljarði. Þá lækkaði Marel lítillega, um 0,24%, en viðskipti með bréf félagsins voru með minnsta móti eða sautján talsins fyrir 66 milljónir. OMXI10 vísitalan hækkaði um 0,36% í 6,9 milljarða veltu.

Tíðindalítið var á First North markaðnum en þó er rétt að segja frá því að viðskipti áttu sér stað með B-bréf í Sláturfélagi Suðurlands. Er það í fyrsta sinn síðan í ágúst sem slíkt gerist. Alls námu viðskiptin 48 þúsund krónum og dugði það til að hækka gengi bréfanna um 50%.