Ástralir gátu fyrstir í heiminum keypt nýjan iPad Mini í verslunum í morgun en nýji iPadinn verður einnig til sölu hér á landi í dag. Nýr iPad Mini er 5 fersentimetrum minni en venjulegur iPad og vegur 310 grömm en venjulegur iPad vegur 652 grömm.

Eins og oft gerist þegar Apple kynnir nýjar vörur þá myndast langar raðir fyrir framan verslanir. Þetta átti þó ekki við í Sidney í Ástralíu því þar voru eingöngu 50 manns í röð og biðu eftir að kaupa iPad Mini. Á vef Politiken kemur fram að ástæðan geti verið sú að þessi nýja spjaldtölva er dýr í samanburði við samkeppnisvörur eins og Google Nexus 7 og Galaxy Tab 2.