Starfsmönnum Landsbankans mun fækka um 50 við hagræðingaraðgerðir bankans eins og segir í tilkynningu Landsbankans. 29 starfsmönnum hefur verið sagt upp en 15 verið boðinn starfslokasamningur vegna aldurs og verða tryggð full réttindi. Aðrir sem nú hætta höfðu áður sagt upp störfum.

Aðrar aðgerðir fela í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Bankinn áætlar að um 400 milljónir króna sparist á ári með þessum breytingum.

Fram kemur í tilkynningunni frá bankanum að afgreiðslum bankans á Flateyri, Súðavík og Bíldudal verði lokað. Útibúin á Króksfjarðarnesi, Grundarfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Árbæ í Reykjavík verða sameinuð öðrum útibúum bankans. Síðasti starfsdagur í útibúum sem lögð verða niður er fimmtudagurinn 31. maí.