Florealis, sprotafyrirtæki sem hlaut stuðning frá Startup Reykjavík, hefur nú tryggt sér fimmtíu milljón króna fjármagn í öðru fjármögnunarferli sínu. Florealis er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu meðala og lyfja út frá heilsugrösum.

Fjárfestarnir á bak við fjármögnunina eru meðal annars sérfræðingar úr læknisfræðisamfélaginu auk englafjárfesta svokallaðra. Í fyrstu umferð fjármögnunar safnaði Florealis einnig 50 milljónum, svo ljóst er að nú hleypur tala fjármagnsins á um 100 milljónum króna.

Florealis samanstendur af Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda fyrirtækisins, auk Karls Guðmundssonar og Elsu Steinunnar Halldórsdóttur, sem eru yfirmenn sölu og vöruþróunar fyrirtækisins.

Frá þessu er sagt á vefsíðu Einars Gunnars Guðmundssonar, sem er framkvæmdastjóri Startup Reykjavik Invest ehf. Að þessu sinni sá fyrirtækið Beringer Finance um fjármögnunarferlið fyrir Florealis.