Hagnaður af rekstri Fiskmarkaðs Íslands hf. á tímabilinu var 49,7 milljónir króna. Velta félagsins var 155,8 milljónir króna. Þessi niðurstaða er í takt við væntingar stjórnenda og heldur betri ef eitthvað er. Meðalverðið á seldum fiski heldur áfram að lækka og lækkar um 10% á milli ofangreindra rekstrartímabila.

Á tímabilinu rak félagið uppboðsmarkað fyrir fisk í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi, Arnarstapa, Akranesi, Reykjavík og Þorlákshöfn. Seld voru 17.379 tonn af fiski fyrir 2.074 millj. kr. og var meðalverð á kíló kr. 119 Á sama tímabili árið áður hjá Fiskmarkaði Íslands hf. voru seld 15.898 tonn af fiski fyrir 2.094 millj. króna og var meðalverðið á kiló kr. 132.

Meðalverð fyrri ofangreint rekstrartímabil hefur hæst verið kr.189 þannig að lækkunin frá þeim tíma þar til nú er orðin 37%. Þetta þýðir að sjálfsögðu sambærilega lækkun á tekjum Fiskmarkaðs Íslands af hverju seldu kílói. Magnið eykst hins vegar um 8,5% og vegur það upp á móti fyrrgreindri lækkun. Aukin sala í tonnum talið kallar hins vegar óneitanlega á meiri kostnað hjá félaginu. Því er það að mati undirritaðs mjög ásættanlega niðurstaða að hagnaður af reglulegri starfsemi skuli vera nánast sá sami og á sama tímabili síðasta árs.

Fjármagnsliðirnir eru og jákvæðir um kr. 10 millj. á tímabilinu og skýrist það af arðgreiðslum frá félögum, sem FMÍ á í, að andvirði kr 5.8 millj. og gengishagnaði erlendra lána upp á um 4 millj. Nú eru blikur á lofti sem benda til þess að gengisþróunin fara að breytast og íslenska krónan að lækka. Gangi það eftir þá mun meðalverð á seldum afla hjá félaginu væntanlega hækka og þar með tekjur félagsins af hverju seldu kílói fiskjar, janframt mun það mynda gengistap af erlendum lánum félagsins. Eins og ávallt í þessum rekstri þá eru óvissuþættirnir margir, ma. þróun gjaldmiðla og fiskverðs og aflabrögð hjá viðskiptabátum félagsins og því varhugavert að gefa út nákvæmar afkomuspár fyrir árið.