*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 21. júní 2019 16:00

50 milljóna sekt Eimskipa staðfest

Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms sem áður hafði staðfest ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Landsréttur staðfesti í dag 50 milljón króna sekt Eimskipafélags Íslands hf. sem félaginu hafði verið gert að greiða fyrir að hafa látið hjá líða að birta innherjaupplýsingar á tilsettum tíma. Héraðsdómur hafði áður gert slíkt hið sama.

26. maí 2016 birti Eimskip ársfjórðungsuppgjör fyrir fyrsta ársfjórðungs þess árs. Þar kom fram að EBIDTA hafi aukist um tvo þriðjunga milli ára og að afkomuspá hafi verið hækkuð í 49-53 milljónir evra. Uppgjörið hafði verið samþykkt á fundi stjórnar sama dag. Degi síðar hélt félagið fjárfestakynningu þar sem farið var yfir tilkynninguna. Sama dag hækkaði gengi bréfa í félaginu um 9,25% og mánudaginn eftir, það er 30. maí, um 3,22% til viðbótar.

Drög að árshlutauppgjörinu höfðu legið fyrir 20. maí 2016 og lá bætt rekstrarafkoma þess árs þá fyrir að mati FME. Stjórnvaldið taldi að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti hefði Eimskipum borið að birta upplýsingarnar eins fljótt og auðið var á jafnræðisgrundvelli eða festa birtingu þeirra. Með því að gera það ekki hefði félagið brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti.

Í málinu var deilt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME) frá mars 2017 þar sem Eimskip gert að greiða 50 milljónir í stjórnvaldssekt. Krafa félagsins var að ákvörðunin yrði ógild með dómi. Bæði dómstig komust að þeirri niðurstöðu að ákvörðun FME hefði ekki verið háð form- eða efnisannmörkum og því ekki unnt að ógilda hana.

Til vara krafðist Eimskip þess að sektin yrði lækkuð en lögum samkvæmt skal sektin vera minnst 500 þúsund krónur og allt að 800 milljónum. Þór sé heimilt að láta þær nema 10% af heildarveltu séu brot sérstaklega alvarleg. Ekki var fallist á að sektarfjárhæðin hafi verið ómálefnaleg og upphæðin því staðfest.

Í tilkynningu frá Eimskipum til Kauphallarinnar er sagt að niðurstaða dómsins sé vonbrigði og félagið muni nú fara yfir hvort rétt sé að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.