Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, veitti í dag 50 milljónir króna í atvinnustyrki til kvenna við athöfn sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu.

10 umsækjendur fengu hæsta mögulega styrk, 2 milljónir króna hver. Tæplega 250 umsóknir bárust sjóðnum en styrkir voru veittir 56 verkefnum. Tæplega helmingur styrkjanna rennur til verkefna á höfuðborgarsvæðinu en rúmur helmingur til verkefna vítt og breitt um landið.

„Nú bregður svo við að uppgangstími síðustu ára er að baki. Nánast í einu vetfangi stöndum við frammi fyrir miklu og vaxandi atvinnuleysi við aðstæður sem við sjáum ekki fyrir endann á. Við stöndum á tímamótum og það mun krefjast mikils átaks að byggja upp blómlegt og gott atvinnulíf á nýjan leik. Kannski eigum við eftir að sjá ný tækifæri og aðrar áherslur en verið hafa síðustu ár í atvinnulífinu, með aukinni áherslu á hugvit, nýsköpun og fjölbreytni.

Neyðin kennir naktri konu að spinna hefur oft verið sagt og það er jafnan svo með gömul og góð orðatiltæki að á bak við þau liggur raunhæf speki, byggð á reynslu. Þetta er ég sannfærð um að verði raunin með íslenskt samfélag. Þjóðin er vel menntuð, vel upplýst og hér er mikill fjöldi fólks sem hefur aflað sér reynslu, þekkingar og sambanda á sviði rekstrar, vöruþróunar og margvíslegra viðskipta, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum því allt til að bera sem gerir samfélaginu kleift að rétta fljótt úr kútnum ef við spilum vel úr því sem við höfum á hendi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra við afhendingu styrkjanna.

10 styrkhæstu verkefnin

Þau 10 verkefni sem fengu hæsta styrk voru:

Bjarmalundur - Viðskiptahugmyndin snýst um að bjóða upp á sveigjanlegar skammtíma- og hvíldarinnlagnir fyrir Alzheimerssjúklinga, en viðskiptaáætlun Bjarmalundar varð í  þriðja sæti í samkeppni Innovit sl. vor.

Geitfjársetur - Verður miðstöð geitfjárræktunar í landinu, þar sem stunduð verður geitfjárræktun, unnar vörur úr afurðum geita og þær seldar á staðnum og í verslunum.

Heimaþjónusta við fatlaða, langveika og aldraða - Fyrirtækið sinnir fjölbreytilegri heimaþjónustu við fatlaða, aldraða, langveika og aðra þá sem þurfa stuðning og aðstoð við að búa á eigin heimili.

Dýrakotsnammi - Fyrirtækið framleiðir hunda- og kattanammi úr íslenskri lamba-, ungnauta- og ungkálfalifur, en lifur hefur ekki áður verið nýtt á þennan hátt.

Maxímús Músíkús - Er sögupersóna í ævintýri sem Hallfríður Ólafsdóttir skrifaði. Nú hefur verið stofnað félag sem hefur að markmiði að stofna fyrirtæki til að koma bókinni og tónlistardagskrá sem samin er eftir sögunni á framfæri erlendis og fylgja því eftir með vöruframleiðslu tengdri sögupersónunni og klassískri tónlist.

Prisma - Viðskiptahugmyndin er að opna þjónustu fyrir einstaklinga með átraskanir og mun húsnæðið hýsa göngu- og dagdeildarþjónustu.

Búháttasafn - Hugmyndin er að stofna búháttasafn þar sem sýndir verða búhættir liðinnar aldar. Aðalmarkhópur safnsins eru börn og unglingar annars vegar og eldri borgarar hins vegar.

Aldamótaþorpið Eyrarbakki - Snýst um að endurbyggja þorpið á Eyrarbakka í frystihúsi staðarins og búa þannig til ferðamanna- og fræðslusetur í elsta verslunarþorpi Íslands sem tengir saman gamla tímann og nýja.

Sóley, grös og heilsa - Er einkafyrirtæki sem framleiðir snyrti- og heilsuvörur úr villtum íslenskum jurtum.

Alda design - Hannar steyptar gólf- og veggflísar úr íslenskri steypu, en fyrirtækið var starfandi í Bandaríkjunum um árabil.

Nánar um hugmyndirnar tíu (pdf-skjal).