Greiningardeild Kb banka gerir ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands muni hækka vexti um 50 punkta samhliða útgáfu Peningamála næskomandi fimmtudag. Stýrivextir bankans eru nú 10,75% og ef spáin gengur eftir munu vextir bankans nema 11,25%.

Greiningardeild Kb banka gerir ennfremur ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 25 punkta í viðbót á þriðja fjórðungi 2006 og að þeir nái þá hámarki í 11,50%.

Loks gerir Kb banki ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum þar til komið verður fram á annan fjórðung 2007 en þá býst KB banki við að vaxtalækkunarferli muni hefjast því bankinn mun ekki vilja halda vöxtum háum þegar kraftur stóriðjuframkvæmdanna fer þverrandi. Greiningardeild Kb banka ályktar að á seinni hluta næsta árs muni vextir bankans vera um 9%.

Um er að ræða breytingu á fyrri spá bankans en breytingin er sú að nú telur Kb banki að aðhald Seðlabankans muni vara lengur en talið var í September þegar síðasta spá var gefin út. Seðlabanki Íslands þarf því nú að hækka vexti meira og halda þeim hærri í lengri tíma en áður til að viðhalda ,,nægjanlegum" vaxtamun við útlönd.

Greiningardeild Kb banka segir að lokum frá því að ef til tilkynningar um stækkun álversins í Straumsvík komi geti það breytt þessari mynd umtalsvert, sér í lagi ef ákvörðun verður tekin um álver á Húsavík. Ef af þeim framkvæmdum verður þyrfti Seðlabankinn að mæta aukinni spennu vegna stóriðjuframkvæmda með enn frekara aðhaldi í peningamálum strax á næsta ári.