Um 50% starfsmanna íslensku bankanna starfa nú erlendis. Þetta kom fram í ræðu Jónasar Friðriks Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja í gær.

Jónas rakti nokkur atriði varðandi stöðu viðskiptabankanna þriggja en hann benti á það væri hægt að líta á þá sem alþjóðlega banka með höfuðstöðvar á Íslandi.

Þannig eru (að meðaltali) um 58% af tekjum bankanna erlendis frá. Sömuleiðis eru um 55% af útlánum þeirra til erlendra aðila og um 41% heildareigna eru í erlendum dótturfélögum.

„Af þessu má sjá að útrás bankanna hefur valdið því að dreifing eigna og tekna er mun meiri en áður og áhætta vegna efnahagsástands á Íslandi hefur að sama skapi minnkað,“ sagði Jónas.